Origo nýtir ekki hlutabótaleiðina < Origo

 
 

Origo nýtir ekki hlutabótaleiðina

11.05.2020

Origo hefur ekki greitt út arð eða keypt eigin hlutabréf síðustu fjóra mánuði  en hættir við að nýta sér hlutabótaleiðina.  

Origo hefur eins og flest önnur fyrirtæki fundið fyrir niðursveiflu í verkefnum síðustu vikur, sérstaklega frá því í byrjun apríl. Nokkrir stórir viðskiptavinir Origo starfa í ferðaþjónustu og hafa orðið fyrir nánast 100% tekjusamdrætti vegna COVID-faraldursins, t.d. flugfélög, hótel og bílaleigur. „Viðskiptavinir hafa leitað eftir stuðningi Origo til að takast á við þessar ögrandi aðstæður, m.a. með hagræðingu og samdrætti í verkefnum, sem aftur hefur falið í sér verulegan tekjusamdrátt á ákveðnum sviðum hjá okkur,“ segir Finnur Oddsson, forstjóri Origo.  

Origo steig því það skref í kringum síðustu mánaðamót að nýta hlutabótaleið á þeim sviðum sem hafa orðið fyrir hvað mestum áhrifum vegna samdráttar í eftirspurn eftir þjónustu eða ferðatengdum lausnum. Markmiðið félagsins með þátttöku í þessari leið er að verja störf í lengstu lög og forðast uppsagnir ef hægt er, sem er í samræmi við tilgang stjórnvalda með úrræðinu. 

„Síðustu daga hafa skapast umræður í samfélaginu um réttmæti þess að fyrirtæki nýti hlutabótaleiðina í þeim kringumstæðum sem nú eru uppi.  Við hlustum eðlilega á slíka umræðu og drögum af henni lærdóm.  Þó að Origo hafi hvorki greitt út arð fyrir árið 2019 né keypt eigin hlutabréf síðan 7. janúar hefur stjórn félagsins ákveðið að nýta ekki hlutabótarleiðina, afturvirkt frá því nýting hennar hófst.“ segir Finnur.