Aukin sjálfvirkni. Eru vélmenni að taka yfir? < Origo

 
 

Aukin sjálfvirkni. Eru vélmenni að taka yfir?

14.03.2017

Allt að 47% starfa í Bandaríkjunum verða sjálfvirk á næstu 2 áratugum, að sögn Oxford University. Fram kemur að flest störf munu að einhverju leyti verða fyrir auknum áhrifum af sjálfvirkni, ef slík framtíðarsýn verður að veruleika. 

Þegar átt er við sjálfvirkni er vísað til notkunar á vélmönnum, gervigreind eða vélum, sem búið er að forrita með ákveðnum reikniritum, til þess að framkvæma skilgreidar aðgerðir eða verk sem hingað til hafa verið unnin að flestu ef ekki öllu leyti af mannfólki.

Jafnvel blaðamenn eru ekki óhultir 

Í greininn eru tekin dæmi af ýmsum störfum sem eiga það á hættu að verða undir í samkeppni við vélmenni að hluta eða öllu leyti. Þetta eru störf fólks af ýmsum toga; afgreiðslustörf, ákveðin störf millistjórnenda, störf bókara og endurskoðenda, skýrsluhöfundar og jafnvel rithöfundar og blaðamenn, að því er fram kemur í grein Shelly Palmer á Linkedin.

Þróunin er þegar hafin og má vísa til fréttar um japanskt fyrirtæki sem notar gervigreind í stað starfsfólk. 

Munu vélmenni sjúkdómsgreina börnin þín?

En þar er ekki öll sagan sögð. Í greininni segir að fólksfjöldi í heiminum verði 8,5 milljarðar árið 2030 og allt að 11,2 milljarðar árið 2100. Þar af leiðandi verði hörgull á læknum til þess að sinna ört vaxandi mannfjölda í heiminum. Hvað er þá til ráða? Jú þá koma vélmenni til sögunnar enn á ný og munu þau sinna ýmsum störfum á þessu sviði. Allt frá sjúkdómsgreingum til skurðaðgerða. Við höfum nú þegar ofurtölvuna Watson frá IBM sem starfar með fjölmörgum sjúkrahúsum í Bandaríkjunum við rannsóknir og ráðgjöf, eðallega í tengslum við krabbameinsrannsóknir. Sú þróun er því þegar hafin. 

Skýrslan sem hvarf af vef Hvíta hússins

Það er því fremur fá störf sem verða ekki fyrir áhrifum af vaxandi sjálfvirkni. Sagt er frá því að Obama ríkisstjórnin í Bandaríkjunum hafi unnið skýrslu sem segir að 80% starfsmanna sem þéni 20 dollara eða minna á tímann eigi á hættu að verða undir í samkeppni við vélmenni á næstu fimm árum. Að sama skapi væru 31% líkur á því að vélmenni kæmu í stað þeirra sem þéna í kringum 40 dollara á tímann. Af einhverjum ástæðum er ekki lengur hægt að finna téða skýrslu á whitehouse.gov. 

Greinarhöfundur vill ekki meina að þó sjálfvirkni muni vaxa á vinnumarkaði sé framtíðarsýnin fjarri því að vera dökk hvað stöðu mannfólksins varðar varðar, amk er ekkert Skynet í burðarliðnum sem mun gera okkur að undirmálsfólki í heiminum. Mikilvægt sé að aðlagast breytingum og skilja samstarf manns og vélar. Slíkt sé flókið en alls ekki óvinnandi vegur.