Hvernig geta VR og AR lyft fyrirtæki þínu á hærra stig? < Origo

 
 

Hvernig geta VR og AR lyft fyrirtækjum á hærra stig?

06.10.2020

Öll fyrirtæki sem horfa til framtíðar þurfa að velta fyrir sér þessari spurningu: hvernig getum við nýtt viðbættan veruleika (augmented reality - AR) og sýndarveruleika (virtual reality - VR)?

Áður en hægt er að svara þessari spurningu er þó mikilvægt að hafa skýra sýn á hvað viðbættur veruleiki/viðbótarveruleiki og sýndarveruleiki fela í sér. Skýrleiki er jú það sem þessi tækni snýst um.

Hvað er viðbættur veruleiki?

Viðbættur veruleiki er rauntímasýn á heiminn í kringum þig, sem ofan á leggjast tölvugerðar viðbætur sem virðast alveg raunverulegar. Tölvan bókstaflega bætir við veruleikann með því að auka, draga úr eða einfaldlega breyta því sem við skynjum í kringum okkur.

Tökum sem dæmi að þú viljir mála stofuna þína í nýjum lit. Þú skoðar litakort, prófar að mála nokkur sýnishorn á hluta veggjar og reynir að ímynda þér hvernig útkoman verður þegar allt herbergið hefur verið málað. 

Viðbættur veruleiki gerir ágiskanir óþarfar. Þú myndar einfaldlega herbergið með tækinu þínu og biður AR-málningarforritið að setja liti á veggina. Forritið mun taka tillit til ljóss og skugga og gefa raunsæja mynd af því hvernig herbergið mun líta út þegar það hefur verið fullmálað í völdum lit, og þannig spara þér tíma, kostnað og gremju sem fylgir því að mála herbergið í lit sem er þér svo ekki að skapi.

Önnur nýting viðbætts veruleika sem er að ryðja sér til rúms er innanhúss leiðsögn. Við erum orðin vön því að leiðsögukerfi vísi okkur veginn við akstur, en hvað með að rata í ókunnugri byggingu? Á flugvelli, til dæmis. Þú hefur 10 mínútur til að ná flugvélinni þinni en þarft að kaupa sólgleraugu.

AR-forrit gera þér kleift að nota tækið þitt sem innanhúss-leiðsögukerfi sem sýnir þér bygginguna sem þú þarft að rata um með yfirlögðum leiðarlýsingum, leiðarkortum, áætluðum ferðatíma og upplýsingum um þjónustu á borð við verslanir sem selja sólgleraugu. Í stað þess að þjóta um alla flugstöðina í örvæntingarfullri leit að réttri verslun og missa jafnvel af fluginu þínu getur þú slakað á, keypt sólgleraugun þín og mætt í vélina á réttum tíma.

Hvað er sýndarveruleiki?

Sýndarveruleiki tekur tölvugerðan heim skrefi lengra með því að skapa óraunverulegt umhverfi sem virðist raunverulegt vegna þess hvernig það verkar á skilningarvitin. Sýndarveruleikagleraugu, skynjunarhanskar, hljóðrásir, lyktarúði og gervibragðefni vinna öll saman að því að skapa sýndarheim sem virkar ekta.

Með sýndarveruleika getur þú látið notandanum finnast að hann sigli niður Niagara-fossa í tunnu þótt hann liggi í raun í mestu makindum uppi í rúmi á hótelherberginu sínu. Eða, eins í kvikmyndinni Total Recall, talið honum í trú um að hann sé staddur á yfirborði plánetunnar Mars þegar hann er í raun njörvaður niður í sjúkrabörur á endurhæfingarstofnun. Eða hvað?

Sýndarveruleiki hentar einkar vel til að spila tölvuleiki. Ef þú vilt flýja veruleikann í heim skotbardaga eða bílaeltingarleikja, eða jafnvel goðsagnarkenndra skrímsla, getur þú sett á þig sýndarveruleikagleraugun og notið alltumlykjandi upplifunar. Vertu bara viss um að enginn sé í seilingarfjarlægð þegar þú sveiflar öxinni!

Hvað geta viðbættur veruleiki og sýndarveruleiki gert fyrir þig?

Að spila tölvuleiki, mála og rata um byggingar eru kannski ekki bestu dæmin um nýtingu nýrrar tækni sem ekki er hægt að vera án, en þau hjálpa manni að átta sig á möguleikum viðbætts veruleika og sýndarveruleika. Með smá ímyndunarafli er hægt að sjá fyrir sér hvernig þessi tækni getur nýst fyrirtækjum til aukinnar verðmætasköpunar.

Mikið hefur til dæmis verið fjallað um hvernig verslanir geta notað viðbættan veruleika til að bæta upplifun viðskiptavina með því að veita upplýsingar í rauntíma um vörur sem þeir skoða í versluninni. Einnig hefur verið til umræðu hvernig viðbættur veruleiki og sýndarveruleiki geta nýst herjum til að greina vini frá óvinum, komast leiðar sinnar og skjóta á skotmörk af meiri nákvæmni. En til að veita þér betri hugmynd um hvernig þessi tækni getur nýst fyrirtæki þínu er rétt að nefna fleiri nýtingarmöguleika. Hér eru nokkur dæmi um hvernig viðbættur veruleiki og sýndarveruleiki eru notaðir í dag.

Heilbrigðisþjónusta

Sýndarveruleiki er notaður til að þjálfa lækna og skurðlækna, sem geta nýtt lausnina til að æfa sig í að framkvæma aðgerðir sem virðast raunverulegar. En sýndarveruleiki hefur einnig reynst vel við meðferð sjúklinga, sérstaklega til að dreifa huganum frá sársauka. Brunasjúklingar, krabbameinssjúklingar og fæðandi mæður, svo dæmi séu tekin, hafa sýnt við jákvæð viðbrögð við afþreyingunni sem sýndarveruleiki veitir, og sýndarveruleiki hefur einnig gefið góða raun við meðferð geðsjúkdóma á borð við áfallastreituröskun og fóbíur.

Gætir þú notað sýndarveruleika til að þjálfa starfsfólk þitt eða láta viðskiptavinum þínum líða betur?

Teymisvinna

Fyrirtæki reiða sig í auknum mæli á fjarvinnu, en þó er oft kvartað yfir því að fundir á netinu jafnist ekki á við fundi þar sem allir eru staddir í sama stað. Hugbúnaðarfyrirtæki á borð við Microsoft og Cisco Systems vinna að þróun fjarfundalausna sem nýta viðbættan veruleika til að líkja eftir fundarherbergi þar sem hver meðlimur teymisins er endurskapaður sem stafrænn tvíburi og sýndur sem heilmynd, svo fjarfundir verði betri eftirlíking funda í eigin persónu.

Gætir þú notað viðbættan veruleika til að auðvelda starfsfólki þínu að vinna sem teymi, eða veita viðskiptavinum þjónustu?

Ráðning starfsfólks með sýndarveruleika

Þú hefur sennilega tekið þátt í starfsviðtali, annað hvort sem umsækjandi eða ráðningaraðili, þar sem umsækjandinn var beðinn að svara því hvernig hann myndi bregðast við ákveðnum ímynduðum aðstæðum. Með sýndarveruleika getur þú endurskapað slíkar aðstæður og séð hvernig umsækjandinn bregst við. Lloyds Banking Group hóf að nota sýndarveruleika við mannaráðningar árið 2017 og nýtir nú til þess tölvugerð umhverfi og þrautir sem ómögulegt væri að endurskapa í hefðbundnu starfsviðtali. Það auðveldar ekki bara Lloyds ráðningarferlið, heldur veitir umsækjendum einnig innsýn í starfsumhverfið á nýja vinnustaðnum áður en þeir mæta til starfa.

Gætir þú notað sýndarveruleika til að gefa forsmekk að þjónustu eða vöru sem þú ert að reyna að selja?

Bílar prófaðir í sýndarveruleika

Í gegnum tíðina hafa hönnuðir þurft að láta sér nægja aðferðir á borð við skissur, leirlíkön eða CAD teikningar til að sjá sköpunarverk sín fyrir sér á áþreifanlegan hátt. En nú er breska hugbúnaðarfyrirtækið Sketch að þróa sýndarveruleikalausn sem gerir bílahönnuðum kleift að stíga inn í sínar eigin tölvuteikningar svo þeir geti prófað að keyra bílinn að eigin raun! Það mun stytta hönnunarferlið verulega, spara ómældan tíma og fé, og ryðja brautina fyrir nýjum og spennandi hugmyndum.

Gætir þú bætt ferlin þín með því að prufukeyra hugmyndirnar þínar í sýndarveruleika?

Sjónræn matargerð

Í áraraðir hafa heimsfrægir kokkar á borð við Ferran Adrià og Heston Blumenthal leikið sér að skilningarvitum matargesta með því að nota vísindi sem kallast „sameinda-matargerðarlist“ til að töfra fram sjónrænar og ilmandi tálmyndir sem láta matargesti halda að þeir séu að borða eitthvað allt annað en það sem þeir sjá. Nú er fyrirtækið Project Nourished, sem hefur almannahagsmuni í fyrirrúmi, að nota sýndarveruleika til að taka tálmyndina skrefi lengra.

Matargestir nota sýndarveruleikagleraugu þar sem þeir hafa til dæmis sushi fyrir augunum, og þegar þeir bera matinn upp að munninum er sushi-lykt dreift með sérstöku tæki. Útkoman er sú að matargestunum finnst þeim finna bragð af sushi. En það er ekki sushi, heldur sérstaklega matreiddur þari.

Hugmyndin er sú að ef hægt er að sannfæra matargesti um að þeir séu að borða eitthvað sjaldgæft og ljúffengt, þótt það sé í raun auðfengið og næringarríkt, geti Project Nourished lagt sitt af mörkum til að leysa matvælakrísu heimsins án þess að fórna góðu bragði.

Gætir þú stuðlað að breytingum með því að breyta vörunum þínum í eitthvað sem þær eru ekki?

Viðbættur veruleiki og sýndarveruleiki eru enn að slíta barnsskónum en segja má að umbyltingin sé hafin. Upplifunin sem fæst með því að spila tölvuleiki í sýndarveruleika og hagræðið af því að nota viðbættan veruleika til að rata um stóra byggingu gefa forsmekkinn að ótalmörgum nýtingarmöguleikum þessarar tækni á næstu fimm, tíu, tuttugu árum.

Hvað sérðu fyrir þér þegar þú horfir til framtíðar?