Hvernig bókum við fundi í Teams? < Origo

 
 

Hvernig bókum við fundi í Teams?

12.03.2020

Það er ekki langt síðan að það var töluvert vandamál að setja upp fjarfundi. Það var sérstaklega erfitt ef átti að hafa myndfundi, deila skjám eða teikna á töflu. Upplifunin var oft óþægileg og fólk nennti oft hreinlega ekki að standa í þessu. En öldin er nú önnur með tólum eins og Microsoft Teams.

Núna er hægt að bóka alla fundi sem „Teams fundi“. Þá fá allir þeir sem eru boðaðir hlekk til að komast á fundinn, hvort heldur sem um er að ræða fólk sem notar þetta forrit eða ekki. Hægt er að tengjast fundinum bæði í gegnum Teams forritið eða í gegnum vafra og það gerist bara með einum smelli.

Þá er hægt að hafa fundinn hvort heldur sem símafund eða myndfund og hver og einn getur þá valið um að nota bara hljóð. Það er jafnvel ekkert mál að tengjast þessum fundum með snjallsíma og taka þetta bara eins og símtal. Einnig er lítið mál að bæta við fundargestum ef þörf er á að kalla til aðra aðila sem erindi hafa á fundinn en voru ekki boðaðir áður.

Microsoft hefur, í ljósi þessa ástands sem Covid-19 vírusinn hefur skapað, boðið öllum að nálgast Microsoft Teams frítt til afnota næstu sex mánuðina til að nýta til fjarfunda og samvinnu.  

Þá geta einstaklingar eða fólk sem er ekki með Office 365 áskrift nálgast þessa lausn til að eiga samskipta við sína vinnufélaga, ættingja og vini meðan þeir eru í sóttkví.

Einhverjir eru kannski komnir lengra og vanir að nota svona kerfi, en þá kannski bara meira á milli landshluta eða landa, en yfirleitt ekki fundi sem eru bókaðir innanhúss. Það má alveg búast við því að fundarmenning eigi eftir að þróast talsvert með tilkomu COVID-19. Ekki nóg með það heldur mun náttúran njóta einhvers góðs af þessu líka þegar upp er staðið.