09.10.2020
Allt frá upphafi iðnbyltingarinnar hefur hugmyndin um vélar sem vinna verk manna valdið áhyggjum og ágreiningi. Á 19. öld í Englandi óttuðust sumir handverksmenn að þeir myndu missa lífsviðurværi sitt vegna véla sem gátu skilað margföldum afköstum á við mannshöndina og gripu því til þess ráðs að eyðileggja þessi nýstárlegu tæki hvar sem þeir náðu til þeirra.
En þeir máttu sín lítils. Ekkert fékk stöðvað framgang vélaraflsins og í dag stendur starfsfólk af holdi og blóði frammi fyrir samkeppni frá vélum sem standa þeim ekki aðeins framar þegar kemur að erfiðisvinnu heldur vitsmunalega líka. Gervigreind – eftirlíking mannlegrar greindar í vélum – leysir nú þegar af hendi ýmis verk sem áður voru í höndum okkar mannanna.
En eftir því sem hlutverk gervigreindar á vinnustaðnum tekur á sig skýrari mynd má sjá að hin raunverulegu tækifæri til að bæta rekstrarárangur liggja ekki í því að draga úr kostnaði með því að skipta starfsfólki út fyrir vélar, heldur í þróun kerfa og ferla til að greiða fyrir árangursríkri samvinnu manna og véla.
Eins og það var orðað í rannsókn sem birtist í Harvard Business Review, "fyrirtæki ná mestum árangri í að bæta rekstur sinn þegar fólk og vélar vinna saman."
Gervigreind gerir fyrirtækjum kleift að bæta árangur sinn á þrjá vegu:
Vitsmunalegi ávinningurinn er einkum fólginn í „stórum heila“ – að nota vélar til að framkvæma milljónir útreikninga á örfáum sekúndum, sækja upplýsingar úr leitarvélum, bera kennsl á andlit, greina mynstur í gríðarstórum gagnagrunnum. Um áratuga skeið höfum við notið góðs af getu tölva til að vinna slík verkefni á skjótan og nákvæman hátt og afköstin fara sívaxandi.
Hinn líkamlegi ávinningur gervigreindar liggur í getu véla til að vinna í sífellu án hvíldar eða svefns, lyfta þungum byrðum, vinna við óvistlegar aðstæður og leysa endurtekin verkefni af hendi af gríðarmikilli nákvæmni. Þjarkar hafa verið notaðir í verksmiðjum í áraraðir, en í dag er þessum þjörkum kennt að bregðast við því sem gerist í umhverfi þeirra á þann hátt sem líkir eftir mannlegri greind, svo mun öruggara verði að vinna í nálægð við þá.
Ávinningurinn sem er skemmst á veg kominn í þróun – og veldur mestum áhyggjum – er notkun gervigreindar til mannlegra samskipta. Það krefst þess að vélar skilji og endurtaki þá þætti mannlegrar greindar sem erfiðast er að festa hendur á: samkennd, kaldhæðni, leiðtogahæfileika, sköpunargáfu o.s.frv. Þetta hefur löngum verið talið það sem aðgreinir manninn frá vélum og veitir honum forskot á þær – ef þær geta ekki skilið brandara geta þær ekki tekið yfir heiminn. Í dag er verið að forrita þessa mannlegu eiginleika í vélar, til dæmis spjallmenni, með sífellt betri árangri.
Hér eru fimm leiðir þar sem gervigreind getur hjálpað fyrirtækjum
Sérsniðnar vörur: Mercedes-Benz notar gervigreind til að sérsníða hvern bíl sem framleiddur er í verksmiðju fyrirtækisins í Stuttgart að vali hvers viðskiptavinar þegar þeir panta bíl í rauntíma. Slík aðlögun að óskum viðskiptavina er mikilvæg fyrirtækjum sem vilja skera sig úr og bjóða viðskiptavinum betri upplifun.
Svik: HSBC notar gervigreind til að afgreiða milljónir viðskiptavinafærsla á örskotsstundu. Þannig má verjast kreditkortasvindli með því að koma auga á óeðlilegt athæfi og greina mynstur sem hjálpa við að draga úr fjölda rangra jákvæðra niðurstaðna.
Ráðning starfsfólks: Unilever notar gervigreind á fyrstu stigum ráðningarferlisins með því að leggja próf fyrir umsækjendur sem eru hönnuð til að greina æskilega eiginleika og velja úr umsækjendum á byrjunarstigum ferlisins á þeim grundvelli. Þetta gerir fyrirtækjum ekki einungis kleift að velja úr mun stærra mengi umsækjenda, heldur hjálpar einnig við að koma auga á hæfileika og eiginleika á borð við samkennd, leiðtogahæfileika og getu til að vinna með öðrum.
Ákvarðanataka: Mörg verkfræðifyrirtæki nota stafræna tvíbura – stafræna eftirmynd af efnislegri eign – til að greina hvenær vél eða íhlutur starfar ekki samkvæmt bestu afköstum og hvenær skipta þarf um eða uppfæra íhlut. Þannig má spara mikla fjármuni með því að koma auga á vandamál í tæka tíð og einnig forðast óþarfa endurnýjun.
Starfsþjálfun: Mannauðsdeildir nota sýndarveruleikagleraugu til að taka upp hvernig reyndasta starfsfólkið sinnir starfi sínu og spilar síðar upptökurnar fyrir starfsfólk í þjálfun, líka í sýndarveruleika, svo það fái innsýn í starfið af eigin raun. Þannig má komast hjá einu þeirra vandamála sem fylgir aukinni fjarvinnu, þ.e. að nýja starfsmenn skorti „fyrirmyndir“ – reyndari kollega sem þeir geta umgengist og lært af.