DVD leigan sem umbylti sjónvarpsheiminum < Origo

 
 

DVD leigan sem umbylti sjónvarpsheiminum

20.12.2016

Ótrúlegur uppgangur Netflix 1. febrúar í Hörpu

Árið 1996 komu nokkrir blankir frumkvöðlar saman og stofnuðu lítið fyrirtækið sem fékk heitið Netflix. Fyrirtækið var stofnað um þá hugmynd að selja og leigja DVD diska gegn föstu gjaldi þar sem einum þeirra blöskraði að þurfa greiða sekt fyrir leigu á disk sem var skilað of seint á DVD leigu. 

20 árum síðar hefur fyrirtækið gjörbreyst og hefur átt stóran þátt í því að neysluhegðun okkar á sjóvnarpsefni hefur snarbreyst. Í dag er efnisveitan Netflix eitt þekktasta vörumerki heims en það hefur á skömmum tíma raskað rótgrónum markaði með ævintýralegum hætti. Áskrifendur félagsins eru nú 86 milljónir í 190 löndum og tekjur þess námu 6,78 milljörðum króna 2015. Til samanburðar hefur Hulu Plus 12 milljónir viðskiptavina og Amazon Prime ríflega 60 milljónir viðskiptavina í Bandaríkjunum. Netflix er aukinheldur þriðja svalasta vörumerkið í heimi, samkvæmt The Telegraph.

Það var fátt sem benti til þess að litla frumkvöðlafyrirtækið í Kísildalnum yrði þessi risi sem raunin varð. Félagið stærði sig af því að vera með stærsta DVD-vöruhús í heimi, eða 1.400 titla. Í dag framleiðir Netflix marga af stærstu sjónvarpsþáttum heims og nægir að nefna House of Cards og Stranger Things. Einnig þætti eins og Orange is the new black í samvinnu við aðra og sýnir fjölda annarra þátta, kvikmynda og heimildarmynda. 

En hvernig fóru nokkrir blankir frumkvöðlar að rísa svo hratt eins og raunin varð með fyrirtækið sitt og fella um leið helsta samkeppnisaðilann, Blockbuster-sem var með 60 þúsund manns í vinnu árið 2004, að velli? Til þess að segja okkur frá þessari ótrúlegu sögu höfum við fengið til landsins Marc Randolph, einn af upphafsmönnum Netflix og fyrsta forstjóra félagsins. Hann verður með erindi í Hörpu frá 9-11 þann 1. febrúar 2017.

Marc Randolph mun segja fjölmargar sögur af spennandi og dramatískri rússíbanareið á upphafsárum Netflix og spinna innblásinn söguþráð um mikilvægi nýsköpunar, þrautseigju og bjartsýni. Þá hyggst hann miðla mörgum af lykilþáttunum í velgengni Netflix, til að mynda áherslur á greiningar.

Marc mun fjalla um:

  • Hvernig geta fyrirtæki brugðist við breyttum aðstæðum?
  • Viltu tileinka þér þankagang sprotafyrirtækja: Hvað getur Kísildalurinn kennt okkur um nýsköpun?
  • Hvernig kvikna hugmyndir hjá mest spennandi sprotafyrirtækjunum í Kísildalnum og hvernig verða þær að veruleika?
  • Netflix: Lítilfjörlega sprotafyrirtækið í Kísildalnum sem felldi Blockbuster og byggði upp eitt þekktasta vörumerki heims.
  • Hverjir voru lykilþættir í velgengni Netflix?

Marc á að baki rúmlega 40 ára reynslu sem frumkvöðull og hefur tekið þátt í stofnun fjölda vel heppaðra frumkvöðlafyrirtækja sem fjárfestir, ráðgjafi eða stjórnarmaður. Hann hefur um árabil miðlað ungum frumkvöðlum af reynslu sinni og er vinsæll fyrirlesari víða um heim. Hann er gríðarlegur áhugamaður um norðurljósin og segist hlakka mikið til að koma til Íslands og sjá þau.  

 

Virkjaðu frumkvöðlakraftinn með stofnanda Netflix, ráðstefna 1. febrúar.