Að gera vinnustaðinn mannlegri með gervigreind < Origo

 
 

Að gera vinnustaðinn mannlegri með gervigreind

18.10.2020

Við fyrstu sýn mætti ætla að starfsfólki stafi ógn af gervigreind. Ef vélar geta hugsað, hagað sér og jafnvel sýnt tilfinningar eins og mannfólk, en unnið miklu hraðar og skilað mun meiri afköstum, hvers vegna þarf þá að borga fólki fyrir að vinna?

En það sem við erum að sjá er að til þess að nýta getu véla til fulls er þörf á samvinnu þeirra við mannfólk. Af því leiðir að þótt sum störf hafi horfið - og muni halda áfram að hverfa - þá eru önnur störf að verða til í þeirra stað. Þessi störf reyna betur á vitsmunalega styrkleika okkar og örva hugann og ættu því að vera áhugaverðari störf.

Það verður aukin þörf á fólki með „sambræðsluhæfileika“ – hæfileikana sem þarf til að starfa á snertifleti manna og véla.

Gróflega má skipta þessum störfum í þrjá flokka:

  • Leiðbeinendur
  • Útskýrendur
  • Verðir 

Leiðbeinendur eru þeir sem kenna gervigreindarkerfum að vinna. Þetta er starf þar sem reynir fyrst og fremst á getu til að leysa vandamál. Fyrst þurfa þeir að bera kennsl á vandamálið sem þarf að leysa og síðan að hanna líkan til að leysa það. Þeir þurfa að þjálfa gervigreindarkerfið, rétt eins og íþróttaþjálfari þjálfar íþróttamann, með endurtekningum og leiðréttingum, þar til vélin lærir að leysa verkefnið af hendi á réttan hátt í hvert skipti eða þar til lengra verður ekki komist.

Útskýrendur eru fólk sem túlka afrakstur gervigreindarkerfa fyrir þá sem taka ákvarðanir. Þeirra starf er að átta sig á upplýsingunum sem fást með gervigreindarferlinu og setja þær fram þannig að leiðtogar, sem eru ekki eins tæknilæsir, skilji þær og geti notað þær í ákvörðunum sínum.

Verðir eru þeir sem við treystum á til að tryggja að vélarnar geri okkur ekki öll að þrælum. Þeir sjá til þess að gervigreind sé notuð á ábyrgan hátt, bæði með tilliti til öryggis og siðferðis. Sem dæmi um störf sem verða til vegna gervigreindar má nefna að áætlað er að ein umfangsmesta persónuverndarlöggjöf síðustu ára, GDPR-reglugerð Evrópusambandsins, muni skapa 75.000 ný störf fyrir verði sem hafa eftirlit með því að persónuupplýsingar séu notaðar á ábyrgan hátt.

Hugsaðu á jákvæðan hátt um gervigreind

Í gegnum tíðina höfum við notið frásagna í bókum og kvikmyndum af vélum sem rísa upp gegn mannlegum sköpurum sínum og taka yfir heiminn. Fyrir fyrirtæki og starfsfólk þeirra er veruleikinn þó sem betur fer allt annar og jákvæðari.

Hugsaðu bara um allar frábæru hugmyndirnar sem þú reyndir aldrei að hrinda í framkvæmd vegna þess að lítill fugl hvíslaði að þér, „þetta mun aldrei virka“. Með gervigreind getur þú látið vél framkvæma greiningarvinnuna og komist að raun um hvort hugmynd sé framkvæmanleg á örskotsstundu. Þannig getum við gefið sköpunargáfunni lausan tauminn og gert fleiri og nýstárlegri hugmyndir að veruleika.

Raunar lítur út fyrir að sú þróun sem er fólgin í því að við látum vélum eftir að leysa endurtekningarsöm verkefni á meðan  mannfólkið sinnir þeim störfum sem krefjast sköpunargleði og hugmyndauðgi sé líklegri til að auka framboð og fjölbreytni starfa fremur en hitt, að því gefnu að leiðbeinendur, útskýrendur og verðir haldi áfram að bæta við þekkingu sína og skilning.